Skilmálar seljanda

SKILMÁLAR – SELJENDUR

Að selja ökutæki á uppboðsvef bilauppbod.is

Til að selja ökutæki eða annað lausafé á uppboðsvef Króks ehf. (bilauppbod.is) þarf eigandi að fylla út beiðni fyrir sölu þar sem lágmarksverð ökutækis er ákveðið og veittar upplýsingar um ástand ökutækis.

Þá þarf seljandi að undirrita umboð til sölu þar sem Króki ehf. er veitt fullt umboð til þess að undirrita fyrir hönd seljanda öll skjöl er varða eigendaskipti á ökutækinu og/eða afskráningu og úreldingu. Jafnframt að taka við söluandvirði.

Jafnframt þarf seljandi að staðfesta skilmála þessa.

Auk þess þarf seljandi að koma með uppboðsmun á starfsstöð Krók ehf. þar sem starfsmenn mynda hann fyrir uppboðsvefinn.

Hverjir geta verið seljendur ökutækja?

Allir einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri og eru fjárráða geta selt lausafjármuni á uppboðsvefnum. Með staðfestingu skilmála þessara lýsir seljandi yfir fjárræði sínu.

Skilyrði fyrir sölu ökutækis.

Ökutæki verða að vera skráð eign seljanda, veðbandalaus og bifreiðagjöld og þungaskattur að fullu greidd svo unnt sé að taka ökutæki til uppboðsmeðferðar. Sama gildir um annað lausafé að það þarf að vera veðbandalaust.

Upplýsingar um uppboð eða uppboðsmuni.

Hægt er að senda inn fyrirspurnir um uppboð eða einstaka uppboðsmuni á netfangið sala@krokur.is eða í síma 522-4610.

Lágmarksverð.

Seljandi tilgreinir sérstaklega í beiðni fyrir sölu það lágmarksverð sem hann vill fá fyrir umræddan uppboðsmun. Náist lágmarksverð í uppboði hefur komist á bindandi kaupsamningur um uppboðsmuninn og er seljandi bundinn af því að selja ökutækið/muninn til hæstbjóðanda. Náist lágmarksverð ekki er haft samband við seljanda og hann ákveður hvort hann selur ökutækið/muninn hæstbjóðanda, tekur ökutækið úr sölu eða setur ökutækið að nýju á uppboð. Tilboðsgjafi er ávallt bundinn við hæsta tilboð þrátt fyrir að það nái ekki lágmarksverði.

Staðsetning uppboðsmunar.

Á meðan á uppboði stendur eru ökutæki og annað lausafé almennt staðsett á starfsstöð Króks ehf. nema um annað sé sérstaklega samið við starfsmenn Króks ehf. Auðveldar þetta aðgengi tilboðsgjafa að uppboðsmunum svo þeir geti uppfyllt skoðunarskyldu sína og eykur líkur á því að tilboð verði gert í uppboðsmun. Uppboðsmunir standa alla jafna úti á meðan uppboð fer fram og tekur Krókur ehf. enga ábyrgð á skemmdum sem kunna að verða unnar á uppboðsmunum.

Upplýsingaskylda seljanda.

Seljandi þarf að gefa greinargóða lýsingu á ökutæki eða mun áður en uppboðsferli hefst og upplýsa starfsmenn Króks ehf. um alla galla sem hann veit um, hvort ökutæki hafi lent í tjóni eða önnur atriði sem áhrif geta haft á verðmæti uppboðsmunar.

Ferill uppboðs.

Þegar gengið hefur verið frá undirritun nauðsynlegra skjala til þess að uppboð geti hafist er ökutæki eða munur sett á uppboð á uppboðsvef Króks ehf. (bilauppbod.is) og stendur það almennt yfir í fimm til sjö daga. Þegar komist hefur á bindandi kaupsamningur milli aðila, þ.e. annað hvort er hæsta boð yfir lágmarksverði eða seljandi ákveðið að taka hæsta boði þrátt fyrir að það sé undir lágmarksverði, hefur kaupandi tvo sólarhringa til þess að ganga frá greiðslu tilboðsverðsins til Króks ehf.

Söluandvirði uppboðsmunar, að frádreginni söluþóknun og hugsanlegum kostnaði, er lagt inn á uppgefin bankareikning seljanda innan þriggja virkra daga frá því að Krókur ehf. hefur móttekið greiðslu frá kaupanda og búið er að ganga frá nauðsynlegum skjölum vegna eigendaskipta.

Seljandi skuldbindur sig með staðfestingu skilmála þessa til þess að bjóða ekki í eigin uppboðsmuni.

Sala tekst ekki

Takist ekki að selja uppboðsmun á uppboði hefur seljandi kost á að láta bjóða uppboðsmun til sölu öðru sinni á uppboði án frekari kostnaðar innan 2 vikna frá fyrsta uppboði.

Tilboðsgjafi stendur ekki við bindandi tilboð.

Standi hæstbjóðandi ekki við tilboð sitt eru einu úrræði Króks ehf. að útiloka viðkomandi frá frekari notkun uppboðsvefsins. Seljandi getur krafið kaupanda efnda samkvæmt bindandi kauptilboði og innheimt hjá honum söluandvirði uppboðsmunar eða beitt þeim vanefndaúrræðum sem fram koma í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, m.a. með því að krefja tilboðsgjafa/kaupanda um skaðabætur vegna þess tjóns sem það kann að hafa valdið seljanda að tilboðsgjafi stendur ekki við bindandi kauptilboð. Krókur ehf. hefur hins vegar ekki milligöngu um beitingu slíkra vanefndaúrræða eða veitir upplýsingar um hvaða úrræði standa seljanda til boða.

Krókur ehf. hefur þó heimild til þess að bjóða öðrum tilboðsgjöfum að ganga inn í tilboð hæstbjóðanda hafi hann ekki uppfyllt skyldur sínar innan tveggja sólarhringa frá því honum var tilkynnt um að hann hafi átt hæsta boð í uppboðsmun.

Kostnaður.

Sölugjald er kr. 70.000 með virðisaukaskatti. Innifalið í sölugjaldi eru tvær tilraunir til þess að selja uppboðsmun á uppboði. Seljist uppboðsmunur ekki skal seljandi greiða uppboðsgjald, þ.e. kr. 35.000 með virðisaukaskatti. Ef söluverðmæti bifreiðar er undir kr. 150.000 þá er sölugjald kr. 35.000. Til viðbótar sölugjaldi kemur þóknun til kortafyrirtækis að fjárhæð kr. 500 ef greitt er með debetkorti en 1,8% af upphæð ef greitt er með kreditkorti. Ef ökutæki eru geymd inni eru tekin geymslugjöld samkvæmt gjaldskrá Króks.

 

Tilboð.

Öll tilboð eru bindandi fyrir tilboðsgjafa. Hæsta tilboð í hvert ökutæki eða mun er sýnilegt. Tilboðsgjafi verður því að gera hærra tilboð en sýnt er. Ef annar tilboðsgjafi gerir hærra tilboð í umræddan uppboðsmun, getur tilboðsgjafi gert nýtt og hærra tilboð.

Tilboð skulu miða við staðgreiðslu. Virðisaukaskattur er innifalinn í tilboðsverði nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Náist lágmarksverð ekki tekur seljandi ákvörðun um hvort hann selur á hæsta tilboðsverði. Tilboðsgjafi er skuldbundinn við tilboð sitt þrátt fyrir að lágmarksverði sé ekki náð nema seljandi hafni tilboðinu. Þannig er áskilinn réttur til að hafna tilboðum nái þau ekki lágmarksverði.

Allar villur í tilboðsgerð eru á ábyrgð tilboðsgjafa. Hægt er þó að leiðrétta tilboð sé um auðsjáanlega villu að ræða (t.d. ásláttarvillu) og skal tilboðsgjafi þegar er hann verður villunnar var hafa samband við umsjónarmann útboðs með tölvupósti (sala@krokur.is) eða í síma (522-4610).

Tilboði tilboðsgjafa tekið.

Hæstbjóðandi fær sendan tölvupóst um niðurstöður uppboðs um leið og því er lokið og leiðbeiningar um hvernig hann á að ganga frá kaupunum.

Móttaka uppboðsmunar.

Tilboðsgjafi/kaupandi skal greiða og fjarlægja ökutæki eða mun innan tveggja sólarhringa frá þeim tíma sem honum hefur verið tilkynnt með tölvupósti að hann hafi orðið hæstbjóðandi í hinn tiltekna uppboðsmun.

Greiðsla kaupverðs.

Innan þriggja virkra daga eftir að Krókur  ehf. hefur móttekið greiðslu frá kaupanda og gengið hefur verið frá eigendaskiptum skal söluandvirðið að frádreginni söluþóknun, ásamt hugsanlegum kostnaði vegna vangreiddra bifreiðagjalda, þungaskatts, vanrækslugjalds eða annarra gjalda, lagt inn á uppgefinn bankareikning seljanda.

Hafi tilboðsgjafi/kaupandi ekki staðfest kaupin með greiðslu, og sent staðfestingu því til sönnunar til Króks ehf., innan tveggja sólarhringa frá ofangreindri tilkynningu er Krók ehf. heimilt að bjóða öðrum tilboðsgjöfum að ganga inn í tilboð tilboðsgjafa. Tilboðsgjafi er bundinn við kauptilboð sitt þar til annar tilboðsgjafi hefur staðfest að hann vilji ganga inn í tilboð tilboðsgjafa.

Geymslugjald. Sala/förgun uppboðsmunar.

Takist ekki að selja uppboðsmun á uppboði hefur seljandi viku til þess að taka ákvörðun um hvort reynt skuli aftur eða með öðrum kosti fjarlægja uppboðsmun af starfsstöð Króks ehf. Að viku liðinni hefur Krókur ehf. heimild til þess að krefja seljanda um geymslugjald af uppboðsmuninum samkvæmd gjaldskrá félagsins.

Hafi uppboðsmunur ekki verið fjarlægður innan 3 mánaða frá því að í ljós kom að uppboðsmunur hafi ekki selst á uppboði hefur Krókur ehf. heimild til þess að selja uppboðsmuninn til að standa straum af áföllnum kostnaði eða farga uppboðsmuninum á kostnað seljanda.

Fyrirvari.

Allar upplýsingar á uppboðsvef Króks ehf. eru með fyrirvara og engin ábyrgð er tekin á mistökum sem kunna að verða vegna þess að þær reynast ekki réttar eða ef upp koma villur í tölvukerfinu. Krókur ehf. áskilur sér rétt til breytinga á skilmálum þessum.

Ökutæki standa alla jafna úti (þannig að væntanlegir kaupendur geti skoðað) á meðan uppboði fer fram og er ekki tekin ábyrgð á skemmdum sem kunna að vera unnar á bifreiðunum á meðan útboð fer fram.

Undirritaður samþykkir þessa skilmála með undirritun sinni.

Dagsetning:______________________

Undirskrift:___________________________________________

< Til baka